Árshátíð unglingastigs

Árshátíð unglingastigs verður haldin í Laugarborg fimmtudaginn 19. janúar n.k. Hún hefst kl. 20.00 og stendur til kl. 23.30. Ekið er heim að balli loknu.

Nemendur í 8., 9. og 10. bekk  sýna stytta útgáfu af söngleiknum ,,Footloose“ og kennarar  á unglingastigi leikstýra. Auk þess að leika, syngja og dansa á sýningunni sjá nemendur um búninga, leikmynd, förðun og alla tæknivinnu.

  • Verð aðgöngumiða er 700 kr. fyrir nemendur á grunnskólaaldri
  • 1.400 kr. fyrir þá sem eldri eru.
  • Veitingar á hlaðborði eru innifaldar í miðaverðinu.

Athugið að ekki er posi á staðnum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Nemendur á unglingastigi

13.janúar 2017|

Danskennsla

Eftir áramótin hófst danskennsla hjá nemendum í 1.-5. bekk. Elín Halldórsdóttir danskennari kemur vikulega (í tólf skipti) og kennir nemendum allskonar skemmtilega dansa. Tilgangur danskennslu er margþættur m.a. að læra dansspor, skynja takt, vera óhræddur við snertingu við dansfélaga og læra að sýna öðrum virðingu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í fyrsta danstíma hjá nemendum í 1. bekk og ekki er annað að sjá en gleðin ráði ríkjum.

 

12.janúar 2017|

Matseðill – janúar 2017

Hér kemur matseðill fyrir janúarmánuð. Verði ykkur að góðu.

Matseðill fyrir janúar 2017 (pdf)

5.janúar 2017|

Dagskrá síðustu daga fyrir jól

Nú styttist í jólafrí sem hefst að loknum litlu jólunum um hádegi þriðjudaginn 20. desember.

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið brallað þessa síðustu daga fyrir jólafrí. Meðal fastra liða eru kakóferðir í Aldísarlund, jólaföndur, tómstundadagur á miðstigi og bæjarferð á unglingastigi.

Undanfarin ár hafa fleiri og fleiri eignast jólapeysur eða einhver föt sem eru skreytt jólamynstri t.d. sokka, hárskraut, húfur o.þ.h. Okkur langar að hvetja krakkana til að koma í jólalegum fötum í skólann föstudaginn 16. desember og/eða mánudaginn 19. desember. Þetta er einungis til gamans gert og enginn skyldugur að taka þátt.

Litlu jólin verða þriðjudaginn 20. desember milli kl. 10:00 og 12:00. Skólabílar keyra þennan dag og ættu rútur að vera 1 klst. og 45 mínútum seinna þennan morgun en á venjulegum skóladegi.

Á litlu jólunum höfum við þann háttinn á að 1.-7. bekkingar hittast í heimastofum og fara með kennara í íþróttasalinn. Nemendur 4. bekkjar flytja helgileik og allir ganga í kringum jólatré. Hver veit nema skrítnir karlar í rauðum fötum láti sjá sig. Að því loknu á hver bekkur notalega stund í heimstofu með umsjónarkennara.

Unglingastigið byrjar á heimsókn í kirkju þar sem nemendur flytja sögu eða ljóð og tónlistaratriði. Að því loknu hittist hver bekkur með sínum kennara í heimastofu.

Eins og áður sagði lýkur skóla um kl. 12:00 þennan dag og skólabílar keyra heim. Frístund er lokuð frá og með 20. desember til og með 3. janúar 2017 sem er starfsdagur.

Við byrjum aftur 4. janúar á foreldraviðtölum. Kennarar senda tímasetningar í þessari viku. Mikilvægt er að fylla út frammistöðumatið inni á Mentor en það er umræðugrundvöllur í foreldraviðtalinu. Síðasti dagur til að fylla það út er 2. janúar. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 5. janúar 2017.

14.desember 2016|

Hrafnagilsskóli hlýtur styrk úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA

Þann 1. desember hlaut Hrafnagilsskóli styrk til kaupa á einu Lego Mindstorm vélmenni úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA. Vélmennið er notað í svokölluðu Legovali þar sem nemendur unglingastigs hanna vélmenni, forrita það og leysa með því ýmsar þrautir. Við þökkum KEA kærlega fyrir stuðninginn.

9.desember 2016|